Innlent

Bændur á Suðurlandi eru byrjaðir að slá

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Um 11 hektarar voru slegnir á Voðmúlastöðum í gær. Heyinu var pakkað í rúllur í dag.
Um 11 hektarar voru slegnir á Voðmúlastöðum í gær. Heyinu var pakkað í rúllur í dag. Vísir/Magnús Hlynur

Sláttur er hafin hjá bændum á Suðurlandi og lítur vel út með grasspretti og heyfeng í sumar. 

„Það er frábært finna lyktina af nýslegnu grasi í sveitinni“, segir Hlynur Snær Theodórsson, bóndi á Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjunum.

Bændur á Landeyjunum, undir Eyjafjöllum og Holta og Landssveit eru að byrja eða eru byrjaðir að slá. Mjög góð spretta hefur verið í Landeyjunum og þar byrjaði Hlynur bóndi á Voðmúlastöðum að slá í gær enda ekki eftir neinu að bíða.

Hlynur og Sæbjörg Eva, sem gera mikið af því að syngja og spila saman, bæði í sveitinni og við allskonar uppákomur þar sem þau eru beðin um að koma fram.Vísir/Magnús Hlynur

„Það er þannig að það er komið þokkalegt gras á forsíðuflekkinn og eins erum við að taka ofan af fyrir kýrnar, þetta var heldur loðið til að setja kýrnar á þetta og svo erum við hreinsa í kringum bæinn og svona. En sláttur hefst á fullu eftir viku til tíu daga, þá verður allt komið á fullt myndi ég halda. Þetta lítur mjög vel út, virkilega vel út“, segir Hlynur.

En er þetta ekki alltaf mjög skemmtilegur tími í sveitinni?

„Jú, það er alveg frábært að byrja heyskap og finna lyktina af nýslegnu grasi, það er engu líkt í svona góðu veðri eins og núna er, þetta er bara yndislegt“.

Þegar Hlynur Snær er búin að slá og snúa heyinu finnst honum fátt skemmtilegra en að taka upp gítarinn og spila og syngja með dóttur sinni, sem heitir Sæbjörg Eva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×