Mikið var um útköll hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna tónlistar- og partýhávaða eftir 23 í gærkvöldi.
Þetta er tiltekið í skeyti frá lögreglu sem sent var á fjölmiðla í morgun. Þar segir einnig frá því að maður hafi verið handtekinn vegna gruns um líkamsárás í Kópavogi um klukkan 21:30 í gær. Segir að maðurinn hafi verið vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls. Árásarþolinn er grunaður um eignarspjöll.
Um klukkan hálf eitt var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi í íbúðarhúsnæði í 101 Reykjavík. Er hann grunaður um eignaspjöll og var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Á fimmta tímanum í nótt var lögregla kölluð út vegna ofurölvi manns þar sem hann svaf í anddyri Barnaspítalans við Hringbraut. Var hann vistaður sökum ástands síns í fangageymslu lögreglu.
Þá þurfti lögregla að hafa nokkur afskipti af ökumönnum sem óku undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.