Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af allmörgum ökumönnum í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Alls eru níu tilfelli skráð í dagbók lögreglu frá klukkan 17 í gær og til klukkan fjögur í nótt þar sem ökumenn eru taldir hafa ekið undir áhrifum.
Þá voru fimm menn handteknir í miðbænum og í 108 vegna annarlegs ástands í aðskildum málum og voru þeir allir vistaðir í fangageymslum lögreglu.
Um miðnætti var bifreið stöðvuð í hverfi 103 og er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, brot á vopnalögum og vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Rétt eftir klukkan eitt var maður handtekinn í Hlíðum vegna gruns um hótanir og var hann vistaður í fangageymslu lögreglu. Þá voru þrjú tilfelli þar sem ökumenn voru stöðvaðir í Hafnarfirði vegna gruns um ölvunarakstur.
Á ellefta tímanum í gær var ökumaður stöðvaður í Mosfellsbæ, en sá er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum.