Vísir ræddi við Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfara HK, um þau meiðsli sem liðið hefur orðið fyrir í fyrstu tveimur umferðum Pepsi Max deildarinnar í fótbolta. Einnig var hann spurður út í mál Stefáns Alexanders Ljubicic og Ara Sigurpálssonar en hvorugur þeirra er kominn með leikheimild.
Eftir að missa Arnar Frey Ólafsson, markvörð, og Bjarna Gunnarsson í meiðsli gegn FH þá fóru hinn ungi Valgeir Valgeirsson og Ásgeir Marteinsson báðir út af í ótrúlegum 3-0 sigri liðsins á KR í Frostaskjóli um helgina.
„Það er ekki alveg vitað með Valgeir þó það virðist hafa verið fjallað um það á öllum miðlum. Þetta gætu verið nokkrir dagar eða jafnvel vika. Við vitum það ekki alveg í dag en fáum að vita meira í dag eða á morgun,“ sagði Brynjar Björn spakur varðandi meiðsli Valgeirs sem þurfti að fara af velli í síðari hálfleik.
Valgeir lenti illa á öxlinni eftir að brotið var á honum í skyndisókn þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Var hann með kælipoka á öxlinni eftir leik og var talið að hann yrði frá í allt að tvær vikur.

Varðandi Ásgeir þá var það einfaldlega fyrirbyggjandi sagði Brynjar en leikmaðurinn var farinn að stinga niður fæti þegar hann var tekinn af velli á 85. mínútu leiksins. Í síðari hálfleik var Sigurður Hrannar Björnsson – markvörður liðsins – svo nuddaður af sjúkraþjálfara þegar tækifæri gafst.
„Það var bara þreyta myndi ég halda. Það er komið langt síðan hann spilaði heilan leik og leikurinn var á grasi í þokkabót [HK æfir og keppir sína heimaleiki inn í Kórnum]. Völlurinn var blautur og þungur í þokkabót. Hann hafði tekið mikið af útspörkum ásamt því að vera bara á tánum allan leikinn. Það má eflaust skrifa þetta að mestu á skort á leikæfingu.“
Hægagangur erlendis er svo ástæða þess að Ari er enn skráður í Bologna á Ítalíu og Stefán í FC Riga í Lettlandi.
„Varðandi Ara þá er þetta að einhverju leyti af því hann er ekki orðinn 18 ára gamall. Þá þarf UEFA [knattspyrnusamband Evrópu] að kvitta undir líka og það virðist bara taka langan tíma. Það tók líka langan tíma fyrir hann að fá leikheimild á Ítalíu þegar hann fór til Bologna síðasta haust. Framkvæmdastjóri félagsins er að vinna í því máli ásamt KSÍ en sambandið er að hjálpa okkur að koma þessu í gegn,“ sagði Brynjar um mál Ara.
Mál Stefáns ætti svo að vera einfaldara en raun ber vitni.
„Sambandið í Lettlandi á einfaldlega eftir að kvitta undir félagaskipti Stefáns hingað til lands. Eitthvað sem ætti bara að taka tíu mínútur í mesta lagi. En þetta er ekki í okkar höndum svo við verðum að bíða. Erum búnir að vera elta menn og reyna koma þessu í gegn. Eins og með Ara þá er KSÍ líka að hjálpa okkur í þessu máli.“
Þá var Brynjar að lokum spurður hvort HK væri í leikmannaleit en félagaskiptaglugginn lokar þann 30. júní.
„Nei við erum það eiginlega ekki. Bíðum eftir að Stefán fái leikheimild, vonumst til þess að það gerist í dag eða á morgun. Hann er byrjaður að æfa með okkur og nú þarf hann bara að komast á völlinn.“
Ásamt þeim Ara og Stefáni þá hefur HK fengið Þorstein Örn Bernharðsson á láni frá KR, Jón Arnar Barðdal kom frá 2. deildarliði KFG eins og frægt er orðið. Þá skipti Alexander Freyr Sindrason endanlega yfir í HK eftir að hafa verið á láni hjá félaginu á síðustu leiktíð.