Hópur fólks sem flúið hefur frá Norður-Kóreu sendi í nótt blöðrur hlaðnar áróðursbæklingum gegn einræðisstjórn Kim Jong Un yfir landamæri Norður og Suður-Kóreu. Samtökin, sem kallast Fighters for a Free North Korea, segja bæklingana vera um 500 þúsund talsins og að tuttugu stórar helíumblöðrur hafi verið notaðar. Auk bæklinga voru sendir tvö þúsund dalir í eins dala seðlum og þúsund minniskort.
Yfirvöld Norður-Kóreu höfðu krafist þess að komið yrði í veg fyrir sendinguna, í samræmi við samkomulag Kim og Moon Jae In, forseta Suður-Kóreu frá 2018. Gæsla á landamærunum hafði verið aukin en aðgerðasinnarnir sendu blöðrurnar yfir landamærin í skjóli nætur, samkvæmt Yonhap fréttaveitunni.
Norður-Kóreumenn segjast hafa prentað út tólf milljónir eintaka af eigin áróðursbæklingum og að þeir verði sendir til suðurs yfir landamærin.
Þá segir Reuters að hermenn hafi sést endurreisa stærðarinnar hátalarakerfi við landamæri ríkjanna. Það kerfi var tekið niður árið 2018 en hafði áður verið notað til að básúna kommúnistaáróðri yfir landamærin.
Líklegt er að athæfið muni auka spennuna á Kóreuskaganum enn frekar, en hún hefur aukist til muna undanfarin misseri.
Yfirlýsingar Norður-Kóreu gagnvart nágrönnum þeirra í suðri hafa orðið sífellt alvarlegri. Frá því að systir Kim, Kim Yo Jong, tók við stjórn samskipta ríkjanna hefur mikil harka færst í leikana. beinum samskiptum ríkjanna hefur verið slitið og yfirvöld Norður-Kóreu sprengdu samvinnustofnun ríkjanna á landamærunum í loft upp.