Innlent

Bruninn á Bræðraborgarstíg: Sá handtekni áfram í gæsluvarðhaldi

Kjartan Kjartansson skrifar
Maðurinn sem er grunaður um aðild að brunanum þegar hann var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku.
Maðurinn sem er grunaður um aðild að brunanum þegar hann var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði karlmann á sjötugsaldri sem var handtekinn í kjölfar brunans mannskæða á Bræðraborgarstíg í áframhaldandi gæsluvarðhald til 10. júlí í dag. Rannsókn á brunanum er sögð miða vel áfram.

Maðurinn var handtekinn í rússneska sendiráðinu við Túngötu í tengslum við brunann fimmtudaginn 25. júní. Hann var borinn út úr sendiráðinu í hand- og fótajárnum.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að gæsluvarðhald yfir manninum hafi verið framlengt í dag að kröfu hennar. Það hafi verið gert í þágu rannsóknarinnar. Lögreglan segir ekki hægt að gefa frekari upplýsingar um rannsóknina að svo stöddu.

Þrír létust í brunanum í húsi við Bræðraborgarstíg 1 í síðustu viku. Tveir aðrir voru á gjörgæslu eftir brunann. Komið hefur fram að brunavörnum hafi verið ábótavant í húsinu. Fleiri tugir manns voru skráðir með lögheimili í húsinu, langflestir með erlent vegabréf en íslenska kennitölu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Hafa fengið fjöl­margar á­bendingar um lé­legar bruna­varnir

Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu hefur borist fjöldi ábendinga um húsnæði þar sem óttast er að brunavörnum og aðbúnaði sé ábótavant í framhaldi af brunanum á Bræðraborgarstíg. Slökkviliðsstjóri segir ærið tilefni til að endurskoða lög.

Rannsókn geti tekið tvo til þrjá mánuði

Bruninn á Bræðraborgarstíg gefur hugsanlega tilefni til að gera breytingar á lögum og reglum um brunavarnir og verklag að sögn forstöðumanns hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×