Yfirvöld hafa hert aftur á takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins í hluta Katalóníu eftir að nýjum smitum fjölgaði á nýjan leik. Íbúum svæðisins er bannað að yfirgefa það en þurfa ekki að halda sig heima eins og í upphaflega útgöngubanninu.
Um 200.000 manns búa í Segria-sýslu í vestanverðri Katalóníu, þar á meðal í borginni Lleida. Útgöngubannið tók gildi á hádegið að staðartíma í dag. Lögreglumenn stóðu vörð við sýslumörkin til að vara fólk við því að það væri á leiðinni inn í svæði þar sem útgöngubann væri í gildi, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Sumir hættu þá við til að festast ekki þar.
Alls greindust 3.706 manns með nýtt afbrigði kórónuveirunnar á Lleida-svæðinu í gær og var það fjölgun um fleiri en 150 frá deginum áður.
„Við ákváðum að einangra Segria vegna þess að gögn staðfestu að það var of verulegur vöxtur í fjölda Covid-19-smita,“ sagði Quim Torra, forseti katalónsku héraðsstjórnarinnar.
Spænsk stjórnvöld hafa undanfarið slakað á þeim ströngu aðgerðum sem gripið var til vegna faraldursins í mars. Katalónía varð einna verst úti í faraldrinum á Spáni en þar hafa tæplega 73.000 manns greinst með veiruna. Spánn er ennfremur á meðal þeirra ríkja þar sem flestir hafa látist og smitast í faraldrinum.