Logi Ólafsson og Eiður Smári Guðjohnsen tóku í gær við þjálfun FH í Pepsi Max deild karla. Logi er einn reyndasti þjálfari í sögu deildarinnar en Eiður Smári er að þjálfa í henni í fyrsta sinn.
Eiður Smári Guðjohnsen kom síðast að deildinni sem leikmaður KR sumarið 1998. Síðasti leikur hans með Vesturbæjarfélaginu var á móti Fram á KR-vellinum 30. júlí 1998.
Eiður Smári samdi við enska 1. deildarfélagið Bolton fjórum dögum síðar en hann stóð sig vel í æfingaleikjum með enska félaginu og var boðinn samningur í kjölfarið.
Eiður Smári fór frá Bolton til Chelsea sumarið 2000 og svo til Barcelona árið 2006. Hann spilaði síðan í Frakklandi, Grikklandi, Belgíu, Kína og Noregi áður en ferli hans lauk sumarið 2016.
Logi Ólafsson var þjálfari Skagamanna þegar Eiður Smári lék síðast í deildinni fyrir 22 árum síðan.
Logi hefur síðan stýrt FH, KR, Selfoss, Stjörnunni og Víkingi í deildinni. Logi hefur alls stýrt liðum í 188 leikjum í úrvalsdeild karla síðan Eiður Smári spilaði þar síðast. Logi hefur fagnað sigri í 80 af þessum 188 leikjum.
18 af þessum 188 leikjum voru í fyrra skiptið sem Logi þjálfari FH og kom liðinu upp í efstu deild sumarið 2000 en FH-ingar hafa verið þar síðan.
Logi og Eiður Smári mættust í deildinni 1998 en lið þeirra ÍA og KR gerðu þá 1-1 jafntefli. Eiður Smári lagði upp mark KR sem Andri Sigþórsson skoraði en Heimir Guðjónsson, núverandi þjálfari Vals, lagði aftur á móti upp jöfnunarmark Skagamanna sem Kristján Jóhannsson skoraði.
Fimm árum síðar störfuðu þeir aftur saman með íslenska landsliðinu. Eiður Smári fékk einmitt fyrst fyrirliðabandið hjá Loga Ólafssyni en það var í 2-1 sigri á Færeyjum á Laugardalsvellinum 7. júní 2003. Logi hafði einnig verið sá sem valdi Eið Smára fyrstan í landsliðið en undir stjórn Loga spilaði Eiður Smári sinn fyrsta landsleik út í Eistlandi 24. apríl 1996.
Þjálfarferill Loga Ólafssonar í efstu deild síðan að Eiður Smári Guðjohnsen spilaði þar síðast:
- 1998 - ÍA - 7 leikir
- 1999 - ÍA - 17 leikir
- 2001 - FH - 18 leikir
- 2007 - KR - 7 leikir
- 2008 - KR - 22 leikir
- 2009 - KR - 22 leikir
- 2010 - KR - 11 leikir
- 2012 - Selfoss - 22 leikir
- 2013 - Stjarnan - 22 leikir
- 2017 - Víkingur R. - 18 leikir
- 2018 - Víkingur R. - 22 leikir