Innlent

Sjá fleiri at­lögur að mann­réttindum og lýð­ræði

Sylvía Hall skrifar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir Vísir/Vilhelm

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi forstjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, segir mörg ríki hafa nýtt sér kórónuveirufaraldurinn til þess að ganga á mannréttindi borgaranna. Síðari ár hafi stofnunin séð atlögur að mannréttindum og lýðræði í auknu mæli.

Ingibjörg ræddi starfslokin í Sprengisandi í morgun.

Á dögunum var ákveðið að Ingibjörg og aðrir forystumenn innan stofnunarinnar myndu ekki starfa áfram. Fulltrúar Aserbaídsjan og Tadsíkistan mótmæltu því að fjölmiðlafulltrúinn yrði endurráðinn, Tadsíkar, Tyrkir og Egyptar lögðust gegn því að Ingibjörg yrði áfram í starfi og fór því svo að hún lét af störfum í gær þegar ráðningartími hennar kláraðist.

Ráðningarnar héldust allar í hendur og framlenging á starfssamningi þeirra átti að gera það sömuleiðis en Ingibjörg sagði ráðningarnar hafa verið afgreiddar sem „einn pakka“ á sínum tíma. Forsendan fyrir því að þau myndu starfa áfram var að öll aðildarríki myndu sammælast um það.

Síðasti dagur Ingibjargar í starfi var í gær og var hennar síðasta verk að gefa út skýrslu um hvernig aðildarríkin hafa innleitt neyðaraðgerðir vegna kórónuveirunnar. Þar var farið yfir þá málaflokka sem heyra undir stofnunina og skoðað hvernig ríkin hafa staðið að málum.

Hún segir eðlilegt að ríki hafi þurft að fórna ýmsum grundvallarmannréttindum til þess að sporna gegn frekari útbreiðslu veirunnar. Til að mynda hafi verið eðlilegt að setja fundafrelsinu skorður, enda hafi þurft að setja á samkomubann svo smit myndi ekki breiðast út. Margir hafi þó nýtt sér aðstæðurnar til að ganga lengra en þörf var á.

Að sögn Ingibjargar er grundvallarreglan við slíkar aðstæður að allar aðgerðir séu tímabundnar og miði að því að ná ákveðnu markmiði. Þá eigi ekki að ganga lengra en nauðsyn krefur. Stofnunin hafi þó séð dæmi þess að ríki hafi „nýtt sér ferðina“ og sett íþyngjandi reglur sem voru oft ótímabundnar eða til lengri tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×