Erlent

Tvö börn myrt í Lørenskógi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ida Melbo Øystese lögreglustjóri á blaðamannafundi vegna Hagen-málsins í vor.
Ida Melbo Øystese lögreglustjóri á blaðamannafundi vegna Hagen-málsins í vor. Vísir/EPA

Tvö börn fundust látin í íbúð í Lørenskógi í grennd við norsku höfuðborgina Ósló í gærmorgun. Faðir barnanna hefur stöðu grunaðs í málinu. Móðir barnanna var flutt alvarlega særð á sjúkrahús.

Málið er rannsakað sem morð, að því er fram kom í máli lögreglustjórans Idu Melbo Øystese á stuttum blaðamannafundi sem haldinn var í Lillestrøm í gærkvöldi. Lögregla hefur annars lítið gefið upp um málið en líkt og áður segir hefur faðir barnanna stöðu grunaðs. Grunur gegn honum virðist þó ekki sterkur, að því er fram kemur í frétt NRK, og hefur honum þegar verið sleppt úr haldi.

Faðirinn neitaði allri aðild að dauða barna sinna við yfirheyrslu í gær, að sögn lögmanns hans. Þá vissi lögmaðurinn ekki á hvaða grundvelli faðirinn hefði stöðu grunaðs og raunar ekki heldur hvort hann væri yfir höfuð enn grunaður, samkvæmt frétt NRK.

Lögregla og slökkvilið voru kölluð út að heimili fjölskyldunnar í Lørenskógi um klukkan hálf níu að norskum tíma á sunnudagsmorgun eftir að tilkynning barst um mögulegan eldsvoða í íbúðinni. Þegar lögreglumenn komu inn í íbúðina fundu þeir börnin tvö látin og móður þeirra alvarlega særða. Hún er ekki í lífshættu. Þá er dánarorsök barnanna ekki ljós.

Umfangsmikil rannsókn lögreglu hófst á vettvangi í gær. Lögreglumenn í hlífðarfatnaði hafa sést við störf í íbúð fjölskyldunnar og þá hefur verið gengið um hverfið með lögregluhunda og rætt við nágranna. Þá fóru lögreglumenn að heimili í Fjerdingby, bæ skammt austan við Lørenskóg, til að ræða við húsráðanda þar. Ekkert hefur verið gefið upp um tengsl viðkomandi við málið.

Nágrannar sem NRK hefur rætt við lýsa undrun og hryllingi yfir málinu. Lørenskógur hefur undanfarna mánuði verið áberandi í fjölmiðlum vegna hvarfs Anne-Elisabeth Hagen, sem lögregla telur að hafi verið myrt á heimili sínu í bænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×