KR vann 0-3 sigur á Fylki á Würth-vellinum í 7. umferð Pepsi Max-deildar karla í gær.
Ef mið er tekið af viðureignunum liðanna undanfarin ár komu úrslitin í gær ekki á óvart. Fyrir utan Frostaskjólið virðast KR-ingar hvergi kunna betur við sig en í póstnúmerinu 110 Reykjavík.
KR hefur unnið síðustu sjö deildarleiki sína gegn Fylki í Árbænum og skorað í þeim 26 mörk, eða 3,7 mörk að meðaltali í leik.
Síðasti sigur Fylkis á KR í Árbænum, eða KR yfir höfuð, kom í næstsíðustu umferð efstu deildar 2012, eða 23. september. Fylkismenn unnu þá 3-2 sigur. Tveir fyrrverandi leikmenn KR, Björgólfur Takefusa og Ingimundur Níels Óskarsson, og einn núverandi leikmaður KR, Emil Ásmundsson, skoruðu mörk Fylkis.
Síðan þá hafa KR og Fylkir mæst þrettán sinnum. KR-ingar hafa unnið ellefu leiki og tvisvar sinnum hefur orðið jafntefli.
Pablo Punyed, Óskar Örn Hauksson og Tobias Thomsen skoruðu mörk KR í gær. Pablo og Tobias voru einnig á skotskónum í 1-4 sigri KR-inga í Árbænum á síðasta tímabili.
KR er á toppi Pepsi Max-deildarinnar með fimmtán stig, tveimur stigum á undan Val sem er í 2. sætinu. KR-ingar hafa unnið fjóra leiki í röð.
Fylkismenn, sem höfðu unnið fjóra leiki í röð fyrir leikinn í gær, eru í 3. sæti deildarinnar með tólf stig.
Leikir KR og Fylkis í Árbænum síðan 2010
- 2020: 0-3 sigur KR
- 2019: 1-4 sigur KR
- 2018: 2-5 sigur KR
- 2016: 1-4 sigur KR
- 2015: 1-3 sigur KR
- 2014: 0-4 sigur KR
- 2013: 2-3 sigur KR
- 2012: 3-2 sigur Fylkis