Erlent

Björgunarpakki og fjárlög marki tímamót fyrir ESB

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Leiðtogar Evrópusambandsins segja fjárlög sambandsins og risa björgunarpakka vegna kórónuveirufaraldursins marka tímamót í sögu Evrópu. 800 milljarða evra björgunaraðgerðir tryggi vonandi enduruppbyggingu álfunnar.

Viðræðunum lauk í nótt og samþykkti leiðtogaráðið tæplega tveggja billjóna evra fjárlög sem fela meðal annars í sér hundraða milljóna aðgerðir til að stemma stigu við áhrifum kórónuveirufaraldursins.

„Þetta tókst. Evrópa er sterk og stendur saman. Við náðum samkomulagi um björgunarpakkann og fjárlögin. Þetta voru afar erfiðar viðræður á erfiðum tímum,“ sagði Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, tók í sama streng: „Oft er Evrópusambandið sakað um aðgerðaleysi en hér erum við að sýna fram á hið gagnstæða.“

Fjárlögin sjálf gera meðal annars ráð fyrir miklum fjárveitingum til umhverfismála en björgunarpakkinn var helsta deiluatriði aðildarríkjanna. 

Hart var tekist á um hversu stór hluti upphæðarinnar skyldi vera styrkur til aðildarríkja og hversu stór hluti ætti að vera í formi lána. Fimm ríki, þar á meðal Holland, Danmörk og Svíþjóð, kröfðust þess að lán yrðu í fyrirrúmi. Niðurstaðan varð að rétt rúmlega helmingur, eða 390 milljarðar evra, verði styrkur.

Styrkirnir og lánin fara einna helst til þeirra ríkja sem komu verst út úr faraldrinum og strangt eftirlit verður með því hvernig farið verður með peningana. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×