Íslenski boltinn

Hjörvar í sjokki yfir markvörðunum og lyfti gula spjaldinu: „Tómt bull og bras“

Sindri Sverrisson skrifar
Hjörvar Hafliðason neyddist til að fara í vasann og ná í gula spjaldið, til að áminna markverði landsins.
Hjörvar Hafliðason neyddist til að fara í vasann og ná í gula spjaldið, til að áminna markverði landsins. MYND/STÖÐ 2 SPORT

„Ég er sjokkeraður á frammistöðu markvarða í Pepsi Max-deildinni í ár,“ sagði Hjörvar Hafliðason, fyrrverandi markvörður í Pepsi Max stúkunni á Stöð 2 Sport.

Frammistaða markmanna var til umræðu í Pepsi Max-stúkunni í gærkvöld en þeir hafa gert talsvert af mistökum það sem af er leiktíð í Pepsi Max-deildunum. Fleiri en venjulega, að sögn Hjörvars:

„Ég verð að segja fyrir mig persónulega að sem betur fer hefur púðrið í umfjöllun farið svolítið í dómara og að vera endalaust með þá á heilanum. Mér finnst við búnir að sjá vonlausan standard á markvörslu í upphafi þessa móts. Ég hef engan áhuga á einhverjum COVID-afsökunum. Það er búið að vera tómt bull og bras á markvörðum.“

Þorkell Máni Pétursson reyndi að koma markvörðum til varnar og benti á að á meðan að útileikmenn hefðu getað haldið sér í formi með því að fara út að skokka, þegar lið máttu ekki æfa vegna kórónuveirufaraldursins, hefðu markverðir kannski verið í verri stöðu.

„Þú gast bara látið kærustuna skjóta á þig úti í garði, það er ekkert mál,“ sagði Hjörvar sem sagði reyndar Harald Björnsson og Hannes Þór Halldórsson hafa staðið sig vel til þessa.

Vandamálið einskorðast ekki við markverði í Pepsi Max-deild karla:

„Ég hef verið að horfa á þessa flottu þætti hjá Helenu Ólafsdóttur um Pepsi Max-deild kvenna, og þetta er það sama þar. Það hefur kannski oft verið þannig þar en hún [markvarslan] er búin að vera hryllileg í sumar. Alltaf fer púðrið í dómarana en það er ekki alltaf hægt að segja bara „kemur“,“ sagði Hjörvar og lyfti gula spjaldinu, bókstaflega.


Tengdar fréttir

Jóhannes Karl átti bágt með að hemja sig og lét dómara heyra það

„Þetta er fáránlegt. Þið eruð alltaf að hvetja menn til að vera í einhverjum dýfum,“ kallaði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, að varadómara leiksins við Stjörnuna í Pepsi Max-deildinni. Skagamenn voru óánægðir með margt í dómgæslu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×