Innlent

Rafmagn komið aftur á í Eyjafirði

Andri Eysteinsson skrifar
Ljósin hafa verið kveikt að nýju á Glerártorgi
Ljósin hafa verið kveikt að nýju á Glerártorgi Vísir/Vilhelm

Tekist hefur að koma rafmagni á til allra notenda sem urðu fyrir truflun eftir að útleysing spennis í tengivirkinu á Rangárvöllum olli rafmagnsleysi í Eyjafirði. Frá þessu er greint á vef Landsnets.

Í samtali við Vísi  fyrr í dag segir Einar Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs hjá Landsneti, að spennirinn hafi leyst út þegar unnið var við viðgerðir vegna smærri bilunar. Þá hafi orðið skammhlaup sem olli enn víðtækara rafmagnsleysi.

Hann segir nákvæma ástæðu bilunarinnar ekki liggja fyrir þó líklegt sé að hún tengist áðurnefndum viðgerðum. Málið verði rannsakað nánar og mikilvægt sé að greina það ofan í kjölinn.

Einn var fluttur á sjúkrahús vegna skammhlaupsins og segir framkvæmdastjórinn að allt bendi til þess að viðkomandi sé lítið slasaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×