Sara Sigmundsdóttir á sér merkilega sögu á leið sinn á toppinn í CrossFit íþróttinni og hún hefur upplifað margt þrátt fyrir ungan aldur. Það kom heldur betur í ljós í ítarlegu og athyglisverðu hlaðvarpsviðtali á dögunum.
Íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir elskar það að láta reyna á sig líkamlega og andlega og því kemur það kannski ekki á óvart að hún setti stefnuna á hermennsku á einum tímapunkti.
Sara Sigmundsdóttir er í dag ein besta CrossFit kona heims en það hefur kostað mikinn svita og nokkur tár að komast þangað sem hún er í dag. Sara fór yfir sögu sína með Ed Haynes í hlaðvarpsþættinum Live Perform Compete og í fyrri hlutanum sagði hún frá fyrstu árum sínum í íþróttum.
Sara byrjaði seint að æfa íþróttir og fann sig aldrei almennilega fyrr en hún fann CrossFit íþróttina. Hún hafði hins vegar áður komist að því að hún var hrifinn af krefjandi æfingum sem reyndu mikið á hana.
Fyrsta alvöru reynsla Söru að íþróttaiðkun voru Bootcamp námskeiðin sem áttu síðan á endanum eftir að leiða hana inn í CrossFit íþróttina. Sara sagði frá því hvað heillaði hana við Bootcamp.
Allir finna til en við finnum öll til í sameiningu
„Á Bootcamp æfingunum þá eltum við þjálfarann út um allt þar til að hann stoppaði og þá vorum við tilbúin að gera armbeygjur eða einhverja aðra æfingu. Hann sagði okkur síðan að gera ákveðinn fjölda af þessum æfingum. Kannski hundrað armbeygjur eða eitthvað slíkt. Ég elskaði þetta,“ sagði Sara Sigmundsdóttir við Ed Haynes í hlaðvarpsþættinum Live Perform Compete.
„Ég var svo hrifinn af þessu hráa hugarfari, að gera bara það sem þjálfarinn segir. Þótt að það kosti mikinn sársauka þá höldum við áfram. Allir finna til en við finnum öll til í sameiningu,“ sagði Sara.
„Þessu fylgir svo góð tilfinning eftir æfinguna þegar þér tókst að halda út og klára æfinguna og dróst ekki aftur úr,“ sagði Sara en hugur hennar var þegar farin að leita út fyrir landsteinana.
„Þá fékk þá hugmynd að verða fyrsta konan til að fara í herinn. Það er enginn her á Íslandi en það er her í Noregi,“ sagði Sara.
Norski herinn tók við íslenskum þegnum og var í umræðunni á Íslandi á þessum tíma. Nýliðar í norska hernum eru að jafnaði 18 til 20 ára en það er hægt er að skrá sig í herinn til 28 ára aldurs.
Lágmarksvist í norska hernum er síðan eitt ár og fara þar af 6-8 vikur í grunnþjálfun en eftir það tekur við ítarleg þjálfun á hinum ýmsu starfssviðum hersins, eftir óskum hvers og eins. Að lágmarksvist lokinni má gera samning um lengri dvöl allt frá einu til sex ára í senn og má þá fá frekari þjálfun og menntun og komast í hærri stöður innan hersins.
Sara var því tilbúin að skipta Bootcamp þjálfara út fyrir liðþjálfa.
Ætlaði að létta sig til að komast í herinn
„Ég setti mér þar markmið að verða fyrsta konan til að fara til Noregs og komast í herinn þar. Þetta var markmiðið og til þess að ná því þá vissi ég að ég yrði að standa mig betur á Bootcamp æfingunum,“ sagði Sara
„Ég vissi að ég yrði að létta mig og komast í betra form ef ég ætlaði að komast inn í herinn. Þess vegna fór ég að æfa Fitness, svo ég gæti orðið léttari og um leið andlega sterkari,“ sagði Sara.
„Ég ætlaði að halda mér í 62 kílóum en auðvitað var ekki möguleiki fyrir mig að ná því,“ sagði Sara sem fór síðan nánar yfir það hvernig hún æfði á þessum tíma.
Ekkert varð hins vegar að því að hún fór í herinn. Hún uppgötvaði CrossFit íþróttina og eftir það varð ekki aftur snúið. Það má hlusta á allt viðtalið við Söru hér fyrir neðan.