Eftirför fór fram á sjötta tímanum í gærkvöldi þegar lögreglumenn ætluðu að stöðva ökutæki í Árbænum. Eftirförin varð ekki löng og var bifreiðin stöðvuð þar sem ökumaður og farþegi reyndu að hlaupa af vettvangi. Ökumaðurinn var handtekinn skömmu síðar grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og fleira. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.
Brotist var inn í húsnæði í miðbænum á ellefta tímanum í gær. Tveir menn voru handteknir á staðnum grunaðir um að hafa brotist inn og voru í kjölfarið vistaðir í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.
Nokkuð var um að ökumenn hafi verið undir stýri undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Fjórir voru stöðvaðir í gærkvöldi og nótt grunaðir um slík brot. Þá var einn stöðvaður í Hafnarfirði og var hann sviptur ökuréttindum, grunaður um ítrekað brot.