Innlent

Fyrstu léttbátarnir koma í land á Flateyri

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Fyrstu léttbátarnir komu að landi upp úr klukkan tvö í dag með mannskap og vistir.
Fyrstu léttbátarnir komu að landi upp úr klukkan tvö í dag með mannskap og vistir. Landhelgisgæslan

„Höfnin er full eftir flóðbylgjuna þannig að Þór kemst ekki að bryggju þannig að fólk hefur verið sent með léttbátum.“

Þetta segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða Krossins í samtali við fréttastofu en um borð í varðskipinu Þór er tíu manna teymi frá Rauða Krossinum.

Þór sigldi inn Önundarfjörð um hádegisbil í dag en áhöfnin þurfti að bíða af sér veðrið til að ferja fólk til Flateyrar.

Varðskipið hefur gegnt lykilhlutverki í aðgerðum á vettvangi því vegir til og frá Flateyri eru enn ófærir. Þannig reyndist unnt að flytja björgunarsveitir og vistir til Flateyrar á örfáum klukkustundum.

Framan af gekk erfiðlega að sigla léttbátunum en síðasta tæpa klukkutímann tók að rofa til.

„Fólk er að komast í land. Fyrsti báturinn kom í land fyrir kannski svona korteri þannig að það er bara verið að klára að ferja fólk upp á land og þá hefjumst við handa við að opna fjöldahjálparstöðina og veita sálrænan stuðning,“ segir Brynhildur.

Þegar hafa verið opnaðar fjöldahjálparstöðvar á Ísafirði þar sem 45 manns dvelja sem þurftu að rýma húsin sín en einnig á Suðureyri þar sem níu dvelja. Fjöldahjálparstöðvarnar standa íbúum opnar en þar er hægt að fá skjól og sálrænan stuðning.

 

 


Tengdar fréttir

Vaxandi snjóflóðahætta fram að hádegi

Sérfræðingum hefur ekki enn gefist færi á að meta nákvæma stærð og umfang snjóflóðanna þriggja sem féllu á Vestfjörðum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×