Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, segist hafa fundað reglulega með leiðtogum Kristilega þjóðarflokksins og Venstre síðustu daga og að hún stefni á að geta kynnt nýja ríkisstjórn til leiks fyrir mánaðamót.
Solberg þarf nú að fylla skarð ráðherra úr röðum Framfaraflokksins, en formaður Framfaraflokksins greindi frá því í gær að flokkurinn myndi hverfa úr ríkisstjórn. Vegur þar þyngst embætti fjármálaráðherra sem Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins, hefur skipað síðustu rúmu sex árin.
Ráðherrar Framfaraflokksins munu áfram gegna embættunum þar til að ný stjórn tekur við, en Solberg mun áfram leiða ríkisstjórn Hægriflokks síns, Kristilega þjóðarflokksins og Venstre.
Jensen hefur sagt að það sé eðlilegt að þingmenn Framfaraflokksins munu áfram styðja við bakið á Solberg sem forsætisráðherra þó að flokkurinn hverfi úr stjórn. Solberg sé rétta manneskjan til að leiða landið á þessum tímapunkti.
Fulltrúar Framfaraflokksins hafa gegnt embætti fjármálaráðherra, orku- og olíumálaráðherra, samgönguráðherra, ráðherra málefna aldraðra og lýðheilsu, sjávarútvegsráðherra, dómsmálaráðherra og ráðherra málefna almannaöryggis.