Fótbolti

Hólmbert skoraði tvö | Alfons og Arnór Ingvi á toppnum í sitt hvoru landinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hólmbert Aron Nettavisen.jpeg

Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði tvö er Álasund tapaði 3-2 gegn Rosenborg í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Alfons Sampsted og félagar hans Bodø/Glimt unnu góðan 2-1 sigur á Sandefjord, liði Emils Pálssonar. 

Þá var Arnór Ingvi Traustason í eldlínunni með Malmö í sænsku úrvalsdeildinni en Malmö er á toppi deildarinnar.

Ásamt Hólmberti Aroni voru þeir Daníel Leó Grétarsson og Davíð Kristján Ólafsson einnig í byrjunarliði Álasunds í kvöld. Stuttu eftir að Hólmbert skoraði síðara mark sitt virðist sóknarmaðurinn öflugi meiðast en hann var tekinn af velli. 

Bæði Daníel Leó og Davíð Kristján léku allan leikinn.

Tapið þýðir að Álasund er enn á botni norsku úrvalsdeildarinnar með aðeins sjö stig eftir 14 umferðir.

Fyrr í dag mættust Alfons Sampsted og Emil Pálsson er lið þeirra Bodø/Glimt og Sandefjord mættust. Fór það svo að Bodø/Glimt hafði betur 2-1 og eru sem fyrr á toppi deildarinnar. Alfons og félagar með 38 stig eftur 14 leiki. Sjö stigum meira en Molde sem er í öðru sæti ásamt því að Bodø/Glimt á leik til góða.

Sandefjord er í 11. sæti með 16 stig.

Í sænsku úrvalsdeildinni kom Arnór Ingvi Traustason inn af varamannabekk Malmö er liðið gerði 2-2 jafntefli við Mjallby. Arnór Ingvi lék síðustu 20 mínútur leiksins. Malmö heldur samt sem áður toppsætinu en liðið er með fimm stiga forystu á Elfsborg þegar 16 umferðum er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×