Erlent

Sviss­lendingar sam­þykktu að gera mis­munun gagn­vart hin­­­segin fólki refsi­verða

Eiður Þór Árnason skrifar
Hinseginfánar að húni í tilefni af Pride göngunni í Genf í Sviss.
Hinseginfánar að húni í tilefni af Pride göngunni í Genf í Sviss. epa/MARTIAL TREZZINI

Svisslendingar samþykktu í dag tillögu um að gera mismunun á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar refsiverða samkvæmt hegningarlögum.

Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um málið í dag og greiddu 63% atkvæði með tillögunni en 37% á móti.

Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar var haft eftir forsvarsfólki breytingarinnar að mjótt yrði á munum og ólíklegt gæti talist að ákvæðið hlyti yfir 60% stuðning kjósenda.

Nú þegar var ólöglegt í Sviss að mismuna fólki á grundvelli kynþáttar og trúarbragða. Andstæðingar tillögunnar sögðu að breytingin myndi skerða tjáningarfrelsi fólks í landinu.

Stuðningsmenn fullyrtu að enginn yrði lögsóttur fyrir trú sína eða að ummæli í einkasamtölum. Lögin ættu hins vegar að vernda hinsegin samfélagið í Sviss frá mismunun og aðkasti.

Haft var eftir meðlimum hinsegin samfélagsins í svissneska dagblaðinu 20 Minuten að þeir hafi oft orðið fyrir líkamsárásum og sumir jafnvel þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna þessa.

Sami miðill birti einnig viðtal við unga menn þar sem þeir lýstu því yfir að þeim þætti í lagi að ráðast á samkynja pör og einhverjir ýjuðu jafnvel að því að hægt væri að „lækna þau með nokkrum höggum.“

Forsvarsmenn Bleika krossins í Sviss, hagsmunasamtaka hinsegin fólks, fagna sigrinum og segja að næsta verkefni sé að fá í gegn frumvarp sem leyfi samkynja hjónabönd þar í landi en það liggur nú fyrir þinginu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×