Sænskur saksóknari sem hefur rannsakað morðið á Olof Palme býst við því að rannsókninni ljúki á næstu mánuðum og telur að lausn á málinu gæti verið í augsýn. Heimildir herma að maður sem nú er látinn sé grunaður um að hafa banað þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar.
Morðið á Palme hefur aldrei verið upplýst. Hann var skotinn til bana þegar hann var á leið úr kvikmyndahúsi með eiginkonu sinni í miðborg Stokkhólms í febrúar árið 1986. Tveimur árum síðar var Christer Pettersson, dæmdur ofbeldismaður og smáglæpamaður, sakfelldur fyrir morðið en dómurinn var síðar felldur í gildi.
Sænska dagblaðið Aftonbladet segist hafa heimildir fyrir því að rannsókninni á morðinu muni ljúka án ákæru þar sem grunur beinist nú að manni sem er þegar látinn. Sá hafi komið við sögu í rannsókninni.
Krister Petersson, saksóknarinn sem rannsakar málið, segir að markmið sitt sé að ljúka málinu með ákæru eða binda enda á bráðabirgðarannsókn á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Hann telur sig nú nær því að upplýsa loks morðið, nú 34 árum síðar.