Grindavík og Fjölnir mætast í undanúrslitum Geysisbikarsins síðar í dag en bæði lið hafa átt erfitt uppdráttar í Dominos deild karla í vetur. Það er hins vegar ekki spurt að því þegar mætt er í bikarleiki. Leikurinn hefst klukkan 17:30 og fer fram í Laugardalshöllinni.
Fyrir leik dagsins má reikna með sigri Grindavíkur sem situr í 8. sæti deildarinnar með sjö sigra í þeim 18 leikjum sem þeir hafa leikið til þessa í deildinni. Á sama tíma situr Fjölnir hins vegar í neðsta sætinu með aðeins einn sigur.
Fjölnir hafa tvisvar komist í undanúrslit í sögu félagsins. Árið 2005 fóru þeir alla leið í úrslit þar sem þeir töpuðu fyrir Njarðvík og þremur árum síðar var það sama upp á teningnum. Þá tapaði liðið einnig í úrslitum, að þessu sinni gegn Snæfelli.
Rætt var við báða þjálfara liðanna í Sportbakkanum á Stöð 2 í gær en báðir þjálfarar eru nokkuð brattir fyrir leik kvöldsins. Viðtölin má sjá hér að neðan í fréttinni.
„Þetta er kærkomið fyrir okkur þar sem staðan í deildinni er orðin þröng en það skiptir engu máli í þessu verkefni. Þetta er okkar tækifæri til að sýna hvað við getum og það eru allir gíraðir í það,“ sagði Falur Harðarson, þjálfari Fjölnis í viðtali við Stöð 2 Sport.
„Miklu betri staða en við vorum í fyrir mánuði eða tveimur síðan, ekki spurning. Ég er virkilega spenntur fyrir þessu verkefni núna á miðvikudaginn og óskandi að við náum góðri frammistöðu í þeim leik því við höfum verið að spila þokkalega undanfarið. Með tilkomu nýs Bandaríkjamanns og Evrópsks leikmans þá höfum við verið í góðum takti. Svo ég óska þess að þetta gangi vel í framhaldinu,“ sagði Daníel Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur um leik dagsins.
Leið Fjölnis í undanúrslit
Eftir að hafa setið hjá í fyrstu umferð þá mætti liðið Vestra á Ísafirði í þeirri næstu. Þar unnu Fjölnismenn á endanum þægilegan 17 stiga sigur, 85-68.
Í þriðju umferð mætti Keflavík í Grafarvoginn og unnu heimamenn óvæntan sex stiga sigur í mögnuðum leik. lokatölur 106-100. Erlendu leikmenn Fjölnis fóru mikinn í leiknum en Srdan Stojanovic skoraði 34 stig og Viktor Lee Moses gerði 30.
Leið Grindavíkur í undanúrslit
Grindvíkingar mættu Hamri á útivelli í fyrstu umferð og unnu öruggan 19 stiga sigur, lokatölur í Hveragerði 96-77 Grindavík í vil.
Þeir pökkuðu svo sexföldum Íslandsmeisturum KR saman í annarri umferð. Grindvíkingar fóru einfaldlega á kostum í leiknum og unnu á endanum 29 stiga sigur, 110-81. Jamal Olasawere gerði sér lítið fyrir og skoraði 30 stig í leiknum og Ingvi Þór Guðmundsson gerði 23 stig.
Í þriðju umferð lögðu Grindvíkingar land undir fót er þeir fóru þá til Hafnar í Hornafirði og mættu heimamönnum í Sindra. Þar unnu þeir 19 stiga sigur líkt og gegn Hamri. Lokatölur 93-74 og sætið í undanúrslitum tryggt.