Heilbrigðisyfirvöld á Nýja-Sjálandi tilkynntu í morgun um fyrsta kórónuveirusmitið í landinu. Maðurinn sem sýktist er á sjötugsaldri og var hann nýkominn frá Íran þar sem ástandið er bagalegt.
Auk Nýja-Sjálands greindist vírusinn í fyrsta sinn sunnan Sahara á síðasta sólarhring en ítalskur ríkisborgari sem starfar í Nígeríu sýktist af veirunni en hann hafði nýsnúið aftur til Lagos í Nígeríu frá Mílanó.
Ný tilfelli eru einnig staðfest í fyrsta sinn í Hvíta-Rússlandi og Litháen. Faraldurinn er í mikilli útbreiðslu og hefur nú náð til fimmtíu landa.
Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segja að ólíklegt sé að nokkur þjóð muni sleppa við veiruna.