Fjögur ný tilfelli Covid-19 veirunnar hafa nú greinst í Bretlandi eftir að farþegar sem voru um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess greindust með veiruna.
Fólkið var á meðal 32 Breta og Íra sem komu til landsins í gær eftir að hafa verið föst í sóttkví um borð í skipinu í Japan.
Unnið er að því að flytja smitaða fólkið af spítala á sérstakar heilbrigðismiðstöðvar fyrir sýkta einstaklinga til frekari meðferðar. Talið er að þau hafi smitast um borð í skemmtiferðaskipinu. Þrettán staðfest tilfelli veirunnar hafa nú greinst í Bretlandi.
Farþegarnir 32 voru búnir að vera í tveggja vikna löngu sóttkví um borð í skipinu og áttu að vera í aðrar tvær vikur í heimalandinu.
Sýni úr fólkinu voru send í rannsókn áður en þau flugu heim til Bretlands og reyndust þau þá öll vera neikvæð.
Þrjár rútur fluttu farþegana frá herflugvelli í Wiltshire-sýslu á Arrowe Park sjúkrahúsið í gær í fylgd lögreglu og tveggja sjúkrabíla. Allir um borð klæddust hlífðarbúningum og andlitsgrímum.
Á fimmtudag var greint frá því að minnst 621 af 3.700 farþegum skipsins Diamond Princess hafi smitast af veirunni skæðu og var þá um að ræða stærstu þyrpingu sýktra utan Kína. Þrír farþegar skipsins hafa nú látist af völdum veirunnar.
Farþegar sem höfðu ekki greinst með smit fengu loks að fara frá borði síðasta miðvikudag.