Myndbandsdómgæslan (VAR) kom mikið við sögu í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Ákvarðanir VAR voru umdeildar og myndbandsdómarar báðust m.a. afsökunar á að hafa ekki rekið Tottenham-manninn Giovani Lo Celso af velli fyrir að traðka á Cesar Azpilcueta, fyrirliða Chelsea, í leik liðanna á Stamford Bridge.
„Ég vil að þetta virki og geri leikinn betri en þetta var svo rangt,“ sagði Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, eftir leikinn sem hans menn unnu, 2-1.
„Starf dómara er svo erfitt og VAR átti að hjálpa þeim. Mér finnst ömurlegt að biðja um rautt spjald en þetta brot verðskuldaði það.“
Manchester City fékk vítaspyrnu í seinni hálfleik gegn Leicester City á King Power vellinum þegar Dennis Praet fékk boltann í höndina. Í fyrri hálfleiknum fékk Leicester ekki víti við svipaðar kringumstæður. City vann leikinn með einu marki gegn engu.
„Við erum vonsviknir að hafa ekki fengið víti. Þetta var svo augljóst,“ sagði Brendan Rodgers, stjóri Leicester.
Peter Schmeichel, fyrrverandi markvörður Manchester United og faðir Kaspers, markvarðar Leicester, gekk enn lengra í gagnrýni sinni á VAR.
Daninn sagði að VAR gæti gengið af fótboltanum dauðum ef það væri ekki fjarlægt úr leiknum. Stór orð hjá stórum manni.
VAR kom einnig við sögu í leik Burnley og Bournemouth. Í seinni hálfleik var mark dæmt af Bournemouth því í aðdraganda þess hafði Adam Smith, varnarmaður liðsins, handleikið boltann innan eigin vítateigs. Burnley fékk víti sem Jay Rodriguez skoraði úr.
Burnley vann leikinn, 3-0, og komst upp í 8. sæti deildarinnar.

