Gerð var tilraun til vopnaðs ráns hjá úrsmiðnum Georg V. Hannah í Reykjanesbæ um klukkan hálfeitt í dag. Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, staðfestir að vopnað rán hafi verið framið í verslun í bænum. Hann vill ekki tjá sig frekar um málið en samkvæmt upplýsingum Vísis var karlmaður handtekinn á staðnum.
Mun ræninginn hafa verið vopnaður öxi og greinilega í annarlegu ástandi að sögn vitna. Braut hann og bramlaði í versluninni og eru glerborð mölbrotin sem hafa úr og annan dýran búnað til sýnis. Sá sem svaraði í síma verslunarinnar vildi engar upplýsingar veita um málið þegar Vísir leitaði eftir því.

Ræninginn mun vera ungur karlmaður, líklega á þrítugsaldri.
Úrsmiðirnir vildu ekkert tjá sig um ránið þegar eftir því var leitað. Búðin fagnaði fimmtíu ára afmæli árið 2018.
Fréttamaður hjá Víkurfréttum var á vettvangi skömmu eftir að ránið var framið. Fréttin hefur verið uppfærð með þeim upplýsingum frá lögreglu að ræninginn var vopnaður öxi en ekki hamri.