Topplið Pepsi Max deildar kvenna, Breiðablik, skoraði sjö mörk annan leikinn í röð í kvöld er Þór/KA heimsótti Kópavogsvöll. Liðið er enn með fullt hús stiga á toppi Pepsi Max deildarinnar í fótbolta og hefur ekki enn fengið á sig mark.
Blikar settu met í kvöld þegar þær urðu fyrsta lið í sögu efstu deildar kvenna til halda marki sínu hreinu í fyrstu níu umferðunum. Þá hefur liðið skorað 42 mörk í níu deildarleikjum eða 4.7 mörk að meðaltali í leik það sem af er tímabili.
Blikar héldu einnig hreinu gegn Fylki í Mjólkurbikarnum svo alls eru leikirnir orðnir tíu án þess að fá á sig mark.
Mörk kvöldsins skoruðu þær Kristín Dís Árnadóttir, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir (2), Agla María Albertsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir og Rakel Hönnudóttur.
Mörkin má sjá í spilaranum efst í fréttinni.
Annað mark Áslaugu Mundu var af dýrari gerðinni en Blikar spiluðu sig upp allan völlinn áður en hún lék á þrjá varnarmenn Þórs/KA innan vítateigs og skoraði með góðu skoti.
ROSALEGT MARK hjá @blikar_is gegn @thorkastelpur í kvöld er liðin mættust í @pepsimaxdeildin
— Stöð 2 Sport (@St2Sport) August 19, 2020
Blikar unnu annan leikinn í röð 7-0 (!!!) og eru á toppnum með fullt hús stiga án þess að hafa fengið á sig mark! pic.twitter.com/8qaXn3Dfjc
Blikar eru eins og áður sagði á toppi deildarinnar með 27 stig eftir níu leiki. Íslandsmeistarar Vals koma þar á eftir með 22 stig. Þór/KA er í 5. sæti með 11 stig.