Leik Juventus og AC Milan í ítölsku bikarkeppninni, sem um tíma stóð til að færi fram fyrir luktum dyrum, hefur verið frestað um óákveðinn tíma.
Kórónuveiran hefur haft mikil áhrif á ítalskt íþróttalíf og í dag, sólarhring fyrir seinni leik Juventus og Milan í undanúrslitum bikarsins, var ákveðið að fresta leiknum. Nokkrum klukkustundum fyrr hafði liðsrúta AC Milan komið til Tórínó.
Áður hafði verið ákveðið að leikurinn færi fram án áhorfenda, en þeirri ákvörðun var breytt á sunnudag og ákveðið að leyfa stuðningsmönnum að mæta nema að þeir kæmu frá þeim svæðum Ítalíu þar sem kórónuveiran er útbreiddust. Enn varð svo breyting á í dag eins og fyrr segir.
Ekki er ljóst hvenær leikurinn fer fram en leikjadagskráin er orðin þétt á Ítalíu eftir frestun leikja í ítölsku A-deildinni í síðustu tveimur umferðum. Ekki hefur verið ákveðið hvort spilað verði í deildinni um helgina.
Staðan í bikareinvígi Milan og Juventus er 1-1. Í hinu undanúrslitaeinvíginu eigast við Inter og Napoli þar sem Napoli er 1-0 yfir. Ekki stendur til að fresta seinni leik liðanna sem fram fer á fimmtudagskvöld.

