Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins í fótbolta, íhugar að velja Phil Foden, leikmann Manchester City, í sinn næsta landsliðshóp. Daily Mail greinir frá.
Foden fékk tækifæri í byrjunarliði City gegn Aston Villa í úrslitaleik enska deildabikarsins á sunnudaginn. Foden lék afar vel, lagði upp fyrra mark City fyrir Sergio Agüero og var valinn maður leiksins. City vann 2-1 sigur og hefur unnið deildabikarinn þrjú ár í röð.
England mætir Ítalíu og Danmörku í tveimur vináttulandsleikjum í þessum mánuði og þá gæti Foden fengið eldskírn sína með landsliðinu.
Ef Foden heldur áfram að nýta tækifærin sín með City vel gæti svo farið að hann verði í enska landsliðshópnum á EM 2020.
Foden, sem er 19 ára, hefur alls leikið 60 leiki fyrir City og skorað tíu mörk.
Hann verður væntanlega í byrjunarliði City þegar liðið mætir Sheffield Wednesday í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar annað kvöld.
