Um Perú segir Málfríður að helsti tálminn fyrir nýtingu jarðhita þar í landi sé skortur á fjármagni, þekking og þjálfun heimafólks. Í höfuðborginni Lima ræddi Málfríður við forsvarsmenn helstu jarðhitafyrirtækja landsins og kynnti fyrir þeim starfsemi og tilgang Jarðhitaskólans. „Þau tóku mjög vel í þessa aðstoð Íslands að þjálfa sérfræðinga frá Perú og gera fólkinu í landinu kleift að nýta þessa innlendu og umhverfisvænu orkuauðlind sem liggur undir jarðskorpunni,“ segir Málfríður.
Kólumbía hefur heldur ekki áður sent sérfræðinga í Jarðhitaskólann. Málfríður heimsótti nokkrar stofnanir sem sinna jarðhitakönnunum, umhverfismati og jarðhitavinnslu í Bogotá, Manizales og Medellín og hitti forsvarsmenn þeirra og starfsmenn. Viðtöl voru tekin við nokkra starfsmenn og fyrsti neminn kemur til Íslands í vor. Að sögn Málfríðar hefur Kólumbía sett sér það markmið að árið 2022 verði 10 prósent af orku landsins frá endurnýjanlegum orkuauðlindum og orkufyrirtækið EPM hafði áætlanir um að bora fimm holur á Nevado del Ruiz jarðhitasvæðinu.
Málfríður segir að þær áætlanir hafi hins vegar verið settar á hilluna í bili þar sem bilun í stórri vatnsorkuvirkjun olli miklum skemmdum og vatnsflóði og því sé nú áhersla á að laga þær skemmdir áður en haldið verður áfram með aðrar áætlanir í orkumálum.
Ítarlegri frásögn af ferð Málfríðar er að finna í Heimsljósi á vef Stjórnarráðsins.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.