Enski boltinn

Sancho má fara en fæst ekki á neinum tombóluprís

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Eftirsóttur og mikils metinn
Eftirsóttur og mikils metinn Getty/Jörg Schüler
Hans-Joachim Watzke, yfirmaður leikmannamála hjá Borussia Dortmund, er farinn að undirbúa sig undir það að félagið þurfi að selja enska kantmanninn Jadon Sancho í sumar.

Sancho er eftirsóttur af Manchester United, Liverpool, Chelsea og fleiri félögum en þessi tvítugi leikmaður hafði skorað fjórtan mörk í 23 leikjum í þýsku Bundesligunni þegar hlé var gert á deildinni vegna kórónuveirunnar.

„Þú verður alltaf að virða vilja leikmannsins. Við sögðum það áður en kórónaveiran tók öll völd að okkar vilji er að halda Jadon hjá okkur,“ sagði Watzke.

Hann varar þó áhugasöm félög við því að reyna að nýta sér ástandið í heiminum en ætla má að mörg íþróttafélög, stór og smá, þurfi að hugsa fjárhagslegan rekstur algjörlega upp á nýtt í kjölfar Covid-19.

„Þessi ofurríku félög munu samt þurfa að borga uppsett verð fyrir hann, þrátt fyrir ástandið. Þau geta ekki reiknað með að fá hann á neinum afslætti. Við þurfum ekki að selja neinn leikmann á lægra verði en við metum hann á,“ segir Watzke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×