Erlent

Loughlin dæmd til tveggja mánaða fangelsisvistar

Andri Eysteinsson skrifar
Loughlin þegar hún mætti fyrir dómara í ágúst 2019.
Loughlin þegar hún mætti fyrir dómara í ágúst 2019. Getty/Boston Globe

Bandaríska leikkonan Lori Loughlin hefur verið dæmd til tveggja mánaða fangelsisvistar fyrir þátt sinn í háskólasvikamyllu sem ætlað var að tryggja skólavist dætra hennar í USC háskólanum í Kalíforníu.

Loughlin og eiginmaður hennar, hönnuðurinn Massimo Gianulli, voru á meðal fimmtíu foreldra sem ákærðir voru fyrir þátt sinn í hneykslinu. Efnaðir foreldrar voru sakaðir um að hafa beitt mútum og svikum til að tryggja börnum sínum í nokkra af virtustu háskólum Bandaríkjanna. Loughlin og Gianulli voru sökuð um að hafa greitt hálfa milljón dala til þess að tryggja dætrum sínum inngöngu sem væntanlegir meðlimir róðraliðs skólans þrátt fyrir að dætur þeirra hafi hvorug stundað íþróttina.

Hjónin játuðu fyrir dómi í maí og náðist samkomulag sem mildaði fangelsisrefsingu þeirra en Giannulli var dæmdur til fimm mánaða fangelsisvistar og mun þurfa að borga 250 þúsund dala sekt ásamt því að vinna 250 stundir í samfélagsþjónustu.

Loughlin mun þurfa að greiða 150 þúsund dali og vinna 100 tíma. Hjónin höfðu upphaflega neitað sök en breyttu afstöðu sinni í maí.

Mál annarrar leikkonu, Felicity Huffman, fór einnig hátt en hún játaði sök snemma í ferlinu og sat að lokum inni í ellefu daga eftir að hafa verið dæmd til tveggja vikna fangelsisvistar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×