Á sportrásum Stöðvar 2 í dag er það helsta á dagskrá Pepsi Max deild kvenna, Pepsi Max Stúkan og GameTíví.
Breiðablik tekur á móti Selfoss í Pepsi Max deild kvenna í kvöld.
Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport frá kl. 19:05. Breiðabliksliðið er á toppnum með fullt hús stiga eftir níu umferðir og hefur ekki enn fengið á sig mark. Þá hefur liðið skorað 42 mörk á andstæðinga sína í sumar. Selfoss hefur hinsvegar valdið vonbrigðum og situr liðið í 6. sæti deildarinnar með tíu stig, sautján stigum á eftir Blikum. Þær ætluðu sér stóra hluti í sumar og spurning hvort þær muni hefja viðsnúning á tímabilinu í kvöld, en þá þurfa þær að vera fyrsta liðið til að skora á Breiðablik.
Pepsi Max Stúkan verður á sínum stað í kvöld kl. 21:15. Guðmundur Benediktsson fer yfir síðustu umferð Pepsi Max deildar karla ásamt sérfræðingum Stöðvar 2 Sports. Öll helstu málefni deildarinnar eru krufin til mergjar, umdeildustu atvikin skoðuð sem og glæsilegustu tilþrifin.
Þá er GameTíví á dagskránni á Stöð 2 Esport á slaginu 20:00. Öll mánudagskvöld koma þeir Óli Jóels, Kristján Einar, Tryggvi og Halldór Már og spila heitustu tölvuleikina hverju sinni. Léttleiki og hlátur einkenna mánudagskvöld GameTívi.