Vísindamenn frá Háskólanum í Hong Kong greina frá því í yfirlýsingu að maður á fertugsaldri hafi sýkst af kórónuveirunni í annað sinn. Fjórir og hálfur mánuður leið á milli sýkinganna.
„Að því er virðist hefur ungur og heilbrigður maður smitast aftur af kórónuveirunni, sem hann greindist með fyrir fjórum og hálfum mánuði síðan.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Háskólanum í Hong Kong en New York Times fjallar um málið.
Uppgötvun vísindamannanna gefur til kynna að mótefni fyrir veirunni geti varið í einungis nokkra mánuði fyrir vissa einstaklinga. Hún gæti þá einnig flækt mjög þróun bóluefnis.
Umræddur Covid-19 sjúklingur var með væg einkenni í fyrra skiptið en engin í það seinna. Smitið uppgötvaðist eftir sýnatöku við komuna til Hong Kong en maðurinn hafði verið á ferðalagi á Spáni. Raðgreining sýnir að maðurinn hafi veikst af sama afbrigði og er í mikilli útbreiðslu í Evrópu.