Kvikmyndatökulið hefur tekið Stuðlagil í Jökulsársgljúfrum á leigu í dag og á morgun en þar standa nú yfir tökur á Hollywood mynd sem skartar bandaríska leikaranum Will Smith. Þetta hefur fréttastofa eftir heimildum sínum en RÚV greindi fyrst frá.
Stefanía Katrín Karlsdóttir, einn landeigenda Grundar á Efri Jökuldal, staðfestir að gilið hafi verið tekið á leigu í tvo daga. Aðspurð hvort þau fái ekki milljónir króna fyrir skellir hún upp úr og segir þau varla fá neitt. Þau séu svo miklir græningjar í þessum málum, rollubændur sem kunni ekkert á svona hluti.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er Will Smith staddur á Norðurlandi og væntanlegur í tökurnar í dag eða á morgun. Will Smith er ein af skærustu stjörnum í leikaraheiminum í Hollywood. Hann hefur leikið í stórmyndum á borð við Bad Boys, Men in Black, Ali, The Pursuit of Happyness og lengi mætti telja.

Kvikmyndafyrirtækið True North kemur að verkefninu hér á landi og hafa björgunarsveitarmenn frá Vopnafirði verið ráðnir til að sjá um lokun á svæðinu á meðan á tökum stendur. Komið hefur fram í fréttum að Stuðlagil skartar ekki sínum fagurbláa og -græna lit þessa dagana heldur er vatnið gruggugt. Það er sökum þess að Hálslón við Kárahnjúkavirkjun er orðið fullt og yfirfallið rennur í gilið.
Stefanía var í berjamó þegar blaðamaður náði af henni tali. Hún sagðist enga hugmynd hafa um neitt er viðkæmi verkefninu.
„Við erum bara áhorfendur eins og hver annar,“ segir Stefanía og hlær.