Breiðablik hefur kallað markvörðinn Brynjar Atla Bragason úr láni frá Víkingi Ólafsvík.
Brynjar Atli var fyrir leiktíðina lánaður í Ólafsvík og átti hann að standa í markinu þar í allt sumar en nú hafa Blikarnir kallað hann til baka.
Brynjar Atli hefur verið einn besti leikmaður Ólsara í sumar og hefur þessi ungi markvörður spilað afar vel.
Hann mun þó leika sinn síðasta leik fyrir félagið, í bili, í dag er liðið fær Eyjamenn í heimsókn til Ólafsvíkur.
Ekki er þetta til að bæta ástandið í Ólafsvík þar sem mikið hefur gengið á eftir að Jón Páll Pálmason var rekinn og Guðjón Þórðarson tók við.
Emir Dokara, fyrirliði liðsins, var m.a. sendur í tímabundið leyfi en Ólsarar eru í 10. sætinu, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.