Lögmaður konu sem ætlar í skaðabótamál við Krabbameinsfélag Íslands vegna mistaka við sýnatöku mun eftir helgi senda gögn í tveimur málum sem hann telur sambærileg til embættis Landlæknis. Um er að ræða mál tveggja kvenna sem látist hafa af völdum leghálskrabbameins.
Undanfarna daga hefur Sævari Þór Jónssyni lögmanni borist fjöldi fyrirspurna frá áhyggjufullum konum og aðstandendum sem vilja kanna rétt sinn vegna mögulegra mistaka við greiningu hjá Krabbameinsfélagi íslands.
Mál umbjóðanda Sævars, konu sem greindist með ólæknandi krabbamein eftir að hafa fengið rangar niðurstöður úr krabbameinsskoðun árið 2018, hefur vakið mikla athygli. Félagið hefur nú kallað inn að minnsta kosti 65 konur í nýja skoðun þar sem mistök við greiningu hafa komið í ljós.
Hann telur tvö mál sambærileg fyrsta málinu.

„Þetta eru einstaklingar sem eru látnir og fjölskyldur þeirra hafa borið undir mig gögn máls sem gefa tilefni til eða sýna fram á að sýnatökur hafa verið þannig að það hefði átt að kalla einstaklinga aftur inn til frekari athugunar og í einu tilvikunu til ég að um mjög alvarlegt tilvik sé að ræða og mjög einstakt hvað varðar alvarleika," segir Sævar Þór.
Konurnar hafi farið í sýnatöku á árunum 2013 og 2016.
„Þar af leiðandi spyr ég mig hvort það sé ekki tilefni til að beina rannsókn yfir lengra tímabil en Krabbameinsfélagið hefur nú þegar talað um,“ segir Sævar Þór. En eftir að upp komst um mistökin ákvað Krabbameinsfélagið að endurskoða 6000 sýni frá árunum 2017 til 2018.
Sævar segir að málin verði send til embættis landlæknis á næstu dögum.