Lögreglan á grísku eyjunni Lesbos beitti farendur úr Moria-flóttamannabúðunum sem voru við mótmæli táragasi í dag. Átök milli farendanna og lögreglu brutust út nærri bráðabyrgðaflóttamannabúðum sem höfðu verið reistar af grískum yfirvöldum eftir að Moria-búðirnar brunnu því sem næst til kaldra kola á miðvikudag.
Um þrettán þúsund farendur og flóttamenn bjuggu í Moria-búðunum við þröngan kost og bíða þess flestir örvæntingafullir að fá að yfirgefa eyjuna. Farendur eru einstaklingar sem flytja til annarra landa í leit að vinnu eða betra lífi.
Eldur var kveiktur í bráðabirgðabúðunum fyrr í dag, nærri vegatálmum lögreglu, og þurfti slökkvilið að slökkva í eldinum. Íbúar Moria-búðanna höfðu einnig sjálfir kveikt í búðunum fyrr í vikunni til að mótmæla sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins en eldurinn blossaði aftur upp úr glæðum og brunnu búðirnar því sem næst til grunna.
Mótmælin hófust í gær þegar farendur og flóttamenn gengu að vegatálmum lögreglunnar við flóttamannabúðirnar. Þeir héldu uppi spjöldum með þeim skilaboðum að þeir krefðust frelsis og mótmæltu einnig því að nýjar búðir verði reistar.