Fótbolti

Neymar segist hafa verið kallaður „andskotans api“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar brjálaðist við orð Alvaro Gonzalez í leik Paris Saint-Germain og Olympique Marseille í gærkvöldi.
Neymar brjálaðist við orð Alvaro Gonzalez í leik Paris Saint-Germain og Olympique Marseille í gærkvöldi. EPA-EFE/Julien de Rosa

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar fór mikinn á samfélagsmiðlum í gærkvöldi eftir að hafa fyrr um kvöldið verið einn af fimm leikmönnum sem fengu rauða spjaldið í uppbótatíma í leik Paris Saint Germain og Marseille.

Neymar fannst óréttlætið mikið enda var hann rekinn af velli en upphafsmaðurinn, að hans mati, kláraði aftur á móti leikinn.

Neymar var rekinn af velli fyrir að slá Alvaro Gonzalez, spænskan varnarmann hjá Marseille. Dómarar skoðuðu Varsjána til að ákveða refsingarnar eftir að allt varð vitlaust í lokin. Fimm leikmenn yfirgáfu völlinn með rautt spjald og fullt af gulum spjöldum fór líka á loft.

Neymar talaði strax um það að hafa orðið fyrir kynþáttarníði þegar hann gekk framhjá fjórða dómara leiksins á leið sinni af velli.

Lýsendur á Telefoot héldu því fram að Gonzalez hefði kallað Neymar „skítugan apa“ en Neymar sagði síðan sjálfur alla söguna á Twitter reikningi sínum.

Neymar sagði að Alvaro Gonzalez hefði kallað hann „Mono hijo de puta“ eða „andskotans apa“ en það má sjá færslu Neymar hér fyrir neðan.

„Varsjáin átti ekki vandræðum með að sjá hvað ég gerði en núna vil ég sjá eitthvað gert í því að rasisti kallaði mig ‚andskotans apa'. Það vil ég sjá. Hvað er eiginlega í gangi? Svo refsið þig mér. Hvað með þá? Hvað er í gangi?,“ skrifaði Neymar.

Tveir liðsfélagar Neymar, Leandro Paredes og Layvin Kurzawa, fengu líka rauða spjaldið sem og þeir Jordan Amavi og Dario Benedetto hjá Marseille. Alvaro Gonzalez kláraði aftur á móti leikinn.

Eina mark leiksins skoraði Florian Thauvin fyrir Marseille og tryggði liðinu dýrmætan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×