Gylfi Þór Sigurðsson átti mjög flottan leik fyrir Everton í gær þegar liðið sló Salford City út úr enska deildabikarnum.
Gylfi Þór lagði fyrst upp mark fyrir miðvörðinn Michael Keane, skoraði síðan sjálfur með hægri fótar skoti úr teignum og leyfði síðan Moise Kean að taka víti undir lok leiksins. Sky Sports valdi hann mann leiksins.
Það vakti athygli þegar Everton fékk víti á 87. mínútu leiksins að Gylfi tók ekki vítið sjálfur. Gylfi var fyrirliði Everton í leiknum og var væntanlega líka vítaskytta Everton í leiknum.
Moise Kean fékk tækifæri í byrjunarliðinu eins og Gylfi og þurfti svo sannarlega á marki að halda. Hann hefur eins og Gylfi mátt þola harða gagnrýni.
Gylfi leyfði Moise Kean að taka vítið. Moise Kean skoraði af öryggi og var svo þakklátur Gylfa að hann kyssti hann á hálsinn í fagnaðarlátunum.
Hér fyrir neðan má sjá markið hans Gylfa, stoðsendinguna hans Gylfa og svo þakkarkoss Moise Kean.