Leikmenn og þjálfarar ÍA urðu æfir undir lok leiksins gegn Val í Pepsi Max-deild karla í gær. Skagamenn vildu fá vítaspyrnu þegar fyrirgjöf Brynjars Snæs Pálssonar fór í Rasmus Christiansen.
Þá var staðan 2-3, Val í vil. Skömmu síðar skoraði Kaj Leó í Bartalsstovu fjórða mark gestanna og gulltryggði sigur þeirra.
Atvikið sem Skagamenn voru svona brjálaðir yfir má sjá hér fyrir neðan.
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, lét Guðmund Ársæl Guðmundsson heyra það í viðtali við Vísi eftir leik.
„Mikið svekkelsi. Ég er gífurlega svekktur með það hvernig við færum Valsmönnum tvö mörk á silfurfati. Ég er virkilega svektur með frammistöðu dómarans í leiknum. Við áttum að fá víti hérna í restina, þriðja mark Vals er rangstaða. Það virtist vera að dómarinn hafði engan vilja til að dæma þetta víti eða hlusta á aðstoðardómarann sem að klárlega kallaði að þetta væri víti. Hann kallaði það meira en einu sinni og meira en tvisvar sinnum. Aðstoðardómarinn sem var í fínni stöðu til að sjá þetta vildi dæma víti en ekki dómarinn,“ sagði Jóhannes Karl.
Reynsluboltinn Arnar Már Guðjónsson, sem hefur ekkert leikið með ÍA í sumar vegna meiðsla, gekk skrefi lengra á Twitter eftir leik og kallaði Guðmund Ársæl „Aumingja Rassgatsson“. Hann hefur fjarlægt færsluna.

Mörkin úr leiknum á Norðurálsvellinum á Akranesi má sjá hér fyrir neðan.
ÍA hefur tapað þremur leikjum í röð og er í 10. sæti Pepsi Max-deildarinnar með fjórtán stig. Skagamenn hafa aðeins unnið einn af síðustu átta deildarleikjum sínum.