Áhorfendur mega aftur mæta á leiki á vegum Knattspyrnusambands Íslands. Ákvörðunin tekur strax gildi og nær því til leikja dagsins.
Væntanlegar eru frekari leiðbeiningar frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands með útfærslur varðandi áhorfendafjölda.
Í frétt á heimasíðu KSÍ segir að búast megi við því að 200 manns (börn fædd 2005 og síðar þar með talin) megi vera í hverju hólfi.
Áhorfendur voru bannaðir á leikjum á vegum KSÍ á laugardaginn en nú hefur banninu verið aflétt.
Fimm leikir fara fram í Pepsi Max-deild karla í dag og fjórir í Lengjudeild karla.