„Við höfum verið að bíða eftir svona alvöru leik í smá tíma, svo við erum mjög spenntar,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í fótbolta, fyrir stórleikinn við Svíþjóð í kvöld.
Ísland og Svíþjóð eru með fullt hús stiga í F-riðli undankeppni EM, hafa hreinlega valtað yfir andstæðinga sína hingað til, en eitthvað verður undan að láta í kvöld. Leikurinn hefst kl. 18 á Laugardalsvelli og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Fyrirliði og þjálfari sænska liðsins lýstu Glódísi í gær sem einum besta leikmanni sænsku úrvalsdeildarinnar en þar leikur hún með Rosengård, líkt og sex leikmenn úr landsliðshópi Svía. Glódís þekkir því sænska liðið afar vel þó að langt sé síðan að Ísland mætti því.
Seger og Allani meðal bestu miðjumanna heims
„Þær eru taktískt frábærar, bæði sóknarlega og varnarlega. Þær eru með góða blöndu af því að vera beittar í sókninni og geta keyrt á andstæðinginn, og að geta fundið millisvæðin og spilað fínni fótbolta. Það er það sem gerir þær svo góðar. Þær aðlagast að því sem þær þurfa að gera í hverjum leik fyrir sig.
Þær eru með frábæra karaktera í sínu liði. Caroline Seger er einn besti miðjumaður í heiminum og Kosovare Asllani líka. Svo er þetta bara vel „drillað“ lið, með marga leikmenn sem hafa verið þarna í mörg ár. Hafsentinn Linda Sembrant til dæmis, og margar aðrar. Þetta er flott lið með blöndu af reynslumeiri leikmönnum og ungum sem eru hungraðar í að koma inn og gera vel,“ sagði Glódís.
Glódís var ekki gömul þegar hún kom inn á sem varamaður gegn Svíþjóð í 8-liða úrslitum á EM 2013, í 4-0 tapi Íslands. En telur hún að Ísland hafi færst nær Svíþjóð, sem unnið hefur brons á HM og silfur á Ólympíuleikum síðan þá, á þessum sjö árum?
„Það er það sem er svo erfitt að segja. Við höfum ekki spilað alvöru leik við þær í sjö ár, en það verður spennandi að sjá. Við vonumst auðvitað til þess að við séum að nálgast þær, að við séum á réttri leið. Þangað viljum við komast. Þær eru kannski næstar okkar „kúltúr“ og mér finnst að við eigum að geta náð þeim.“