Glódís Perla Viggósdóttir var ekki par sátt með markið sem var dæmt af Íslandi í fyrri hálfleik gegn Svíum í kvöld. Þá var hún svekkt með að íslenska liðið hafi ekki náð í þrjú stig gegn ógnarsterku liði Svía.
„Ég er eiginlega bara drullusvekkt ef ég á að vera hreinskilin, fannst að við hefðum átt að vinna þennan leik. Skorum löglegt mark og erum betri í seinni hálfleik ásamt smá hluta í fyrri hálfleik líka. Fannst við eiga skilið þrjú stig,“ sagði miðvörðurinn Glódís Perla við Smára Jökul Jónsson eftir leik.
„Ég er ekki búin að sjá þetta aftur. Eins og ég upplifði þetta er ég bara að bakka, ég held að ég vinni skallaboltann. Ég skil ekki hvað hún er að dæma á, markvörðurinn kemur fyrir aftan mig og biður ekki einu sinni um neitt. Þetta er bara léleg dómgæsla,“ sagði Glódís um markið sem var dæmt af íslenska liðinu undir lok fyrri hálfleiks. Þá var dæmt brot á Glódísi fyrir vægast sagt litlar sakir.
Sjá má markið hér að neðan.
Staðan er 0-1 í hálfleik. Íslenska liðið jafnaði metin á 42. mínútu leiksins en dómari leiksins ákvað á einhvern óskiljanlegan hátt að dæma aukaspyrnu hér!
— Sportið á Vísi (@VisirSport) September 22, 2020
Óskiljanleg ákvörðun pic.twitter.com/NsziNQFJ3r
„Mér fannst hún halda striki allan leikinn. Það þurfti ekki mikla snertingu til að það væri dæmt en mér fannst gróft að dæma markið af,“ sagði Glódís um dómara leiksins í kvöld.
„Við þurfum að taka með okkur það sem var jákvætt í þessum leik og þessa tilfinningu sem maður er með núna. Maður bjóst kannski ekki við því fyrir leikinn að eftir leik yrði maður svekktur með jafntefli en leikurinn spilaðist þannig og við ætlum að vinna þennan leik úti,“ sagði Glódís um leikinn gegn Svíum ytra.
„Ég er nú búin að ræða aðeins við þær úti, við erum alltaf vinkonur utan vallar,“ sagði Glódís að lokum aðspurð hvernig það yrði að snúa aftur til Svíþjóðar þar sem hún leikur með liði Rosengård.