Dagný Brynjarsdóttir segir að íslenska liðið ætli sér einfaldlega að sækja þrjú stig gegn Svíum á útivelli eftir 1-1 jafntefli liðanna á Laugardalsvelli í kvöld.
„Já klárlega. Við erum vonsviknar að taka ekki þrjú stig þó eitt stig sé vissulega ágætt. Svíarnir byrjuðu af krafti en við breyttum aðeins okkar varnartaktík og mér fannst við alveg með þær. Þegar við stigum aðeins ofar á þær á miðjunni og pressuðum þær á þeirra vallarhelmingi þá lentu þær í vandræðum. Við gefum þeim leik úti,“ sagði Dagný um leik kvöldsins er Smári Jökull Jónsson ræddi við hana.
„Að koma boltanum yfir línuna. Hún dæmir mark af okkur í fyrri hálfleiknum, veit ekki hvað hún var að dæma á en við þurfum bara að koma boltanum yfir línuna,“ sagði Dagný aðspurð hvað hefði vantað upp á í kvöld en íslenska liðið fékk urmul færa í leiknum.
„Þær voru ótrúlega góður í dag. Voru ekki að spila eins og þær væru aðeins búnar að leika fimm landsleiki. Héldu boltanum vel og eru góðir leikmenn sem gefa okkur rosalega mikið,“ sagði Dagný um ungu leikmennina sem eru að koma inn í liðið.
„Sama hugarfar og við mættum með í seinni hálfleik. Við ætlum að fara út og sækja þrjú stig,“ sagði Dagný að lokum aðspurð hvað íslenska liðið þurfi að gera gegn Svíum ytra.