Íslenski landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson var á sínum stað í liði Barcelona þegar liðið heimsótti Guadalajara í spænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.
Börsungar hafa gígantíska yfirburði í spænskum handbolta og þeir áttu ekki í vandræðum með lið Guadalajara í kvöld.
Barcelona hafði fimm marka forystu í leikhléi, 10-15, og í síðari hálfleik stigu Börsungar á bensíngjöfina og unnu að lokum fjórtán marka sigur, 21-35.
Aron skoraði fjögur mörk en Dika Mem og Jure Dolenec voru markahæstir Börsunga með fimm mörk hvor.