Íslenski boltinn

Martröð Eyjamanna eftir Þjóðhátíðina sem aldrei var haldin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonathan Ricardo Glenn og félagar í ÍBV verða ekki í Pepsi Max deildinni næsta sumar.
Jonathan Ricardo Glenn og félagar í ÍBV verða ekki í Pepsi Max deildinni næsta sumar. Vísir/Daníel Þór

Eyjamenn hafa aðeins unnið tvo af síðustu ellefu leikjum sínum í Lengjudeild karla í fótbolta.

Sumarið 2020 hefur verið Eyjamönnum erfitt í fótboltanum og það batnaði ekkert eftir heimsókn þeirra til Keflavíkur í gær.

Keflavík vann leikinn 3-1 og veruleikinn blasir nú blákaldur við fótboltamönnunum úr Vestmannaeyjum.

ÍBV liðið er níu stigum frá sæti í Pepsi Max deildinni þegar aðeins níu stig eru eftir í pottinum. Það er því orðið ljóst að Eyjamenn spila áfram í Lengjudeildinni á næsta ári.

Liðið sem átti að vinna Lengjudeildina með yfirburðum hefur kolfallið á prófinu og situr nú bara í fimmta sæti deildarinnar með sjö sigra í nítján leikjum.

ÍBV hefur aðeins unnið 2 af síðustu 11 leikjum sínum í Lengjudeildinni og ef við berum það saman við restina af deildinni þá er aðeins eitt lið sem hefur unnið færri leiki á þessum tíma.

Botnlið Leiknis Fáskrúðsfjarðar hefur aðeins unnið einn leik frá 1. ágúst en ÍBV og Víkingur frá Ólafsvík hafa tvo sigurleikir hvort lið. Hin níu lið Lengjudeildarinnar hafa unnið fleiri leiki.

Eyjamenn hafa náð í tólf stig út úr þessum ellefu leikjum þökk sé sex jafnteflum en það þýðir að sex af tólf liðum Lengjudeildarinnar hafa safnað fleiri stigum en ÍBV frá júlílokum.

Flestir sigurleikir í Lengjudeild karla frá 1. ágúst 2020:

  • 1. Keflavík - 7 sigurleikir
  • 2. Fram - 6 sigurleikir
  • 2. Grindavík - 6 sigurleikir
  • 2. Leiknir R. - 6 sigurleikir
  • 5. Vestri - 4 sigurleikir
  • 5. Þór - 4 sigurleikir
  • 7. Afturelding - 3 sigurleikir
  • 7. Magni - 3 sigurleikir
  • 7. Þróttur R. - 3 sigurleikir
  • 10. Víkingur Ó. - 2 sigurleikir
  • 10. ÍBV - 2 sigurleikir
  • 12. Leiknir F. - 1 sigurleikur

Flestir stig í Lengjudeild karla frá 1. ágúst 2020:

  • 1. Keflavík - 23 stig
  • 2. Fram - 22 stig
  • 3. Grindavík - 21 stig
  • 4. Leiknir R. - 20 stig
  • 5. Vestri - 15 stig
  • 5. Þór - 15 stig
  • 7. Afturelding - 12 stig
  • 7. ÍBV - 12 stig
  • 9. Magni - 11 stig
  • 9. Þróttur R. - 11 stig
  • 11. Víkingur Ó. - 10 stig
  • 12. Leiknir F. - 5 stig



Fleiri fréttir

Sjá meira


×