FC Köbenhavn hefur aðeins fengið eitt stig úr fyrstu þremur leikjum sínum í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Blaðamenn BT rýndu af því tilefni í leikmannakaup félagsins.
FCK endaði í 2. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en komst líka í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar. BT skoðaði hvaða leikmenn FCK hefði fengið í þremur síðustu félagaskiptagluggum og komst að þeirri niðurstöðu að félagið tapaði milljónum danskra króna á nokkrum stjörnuleikmönnum.
Ragnar Sigurðssonar hefur aftur á móti ekki valdið félaginu fjárhagslegum skaða, að mati blaðsins. Hann kom enda frítt frá Krasnodar í Rússlandi. Ragnar hefur þó aðeins náð að spila átta leiki fyrir liðið, í deild og Evrópudeild, en misst af 19 leikjum þar sem meiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn.
Ragnar er þó ekki meiddur þessa dagana, hefur byrjað þrjá síðustu leiki FCK og er klár í slaginn með Íslandi gegn Rúmeníu eftir viku.
Mikið meiddur en viðskiptin engin katastrófa
Ragnar kom til FCK, í annað sinn á ferlinum, í janúar og gerði samning sem gilti til loka júní. Hann framlengdi samninginn til skamms tíma, þar sem keppnishald frestaðist vegna kórónuveirufaraldursins, og skrifaði svo undir nýjan samning við FCK í lok júlí. Sá samningur gildir fram á næsta sumar.
Í umsögn BT um Ragnar segir: „Íslendingurinn sneri aftur ókeypis en er að sjálfsögðu á góðum launum – sérstaklega á fyrsta skammtímasamningnum. Með nýjasta samningum hefur hann lækkað umtalsvert í launum til að sýna sinn velvilja, og þó að hann hafi verið mikið meiddur og ekki í formi þá geta þessi viðskipti ekki talist katastrófa.“
Miðillinn segir FCK hins vegar hafa tapað miklu fé á nokkrum öðrum leikmönnum, sérstaklega Pep Biel sem kom frá Zaragoza fyrir jafnvirði um 550-650 milljóna íslenskra króna en hefur engan veginn staðið undir væntingum.