Viggó Kristjánsson átti frábæran leik þegar Stuttgart bar sigurorð af Balingen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en þrír Íslendingar komu við sögu í leiknum sem var jafn og spennandi.
Stuttgart hafði frumkvæðið lengstum og leiddi með tveimur mörkum í leikhléi, 15-17. Sami munur var á liðunum í leikslok því Stuttgart vann að lokum tveggja marka sigur, 28-30.
Viggó var besti maður vallarins; skoraði 11 mörk úr 13 skotum. Liðsfélagi hans, Mosfellingurinn Elvar Ásgeirsson, fékk ekki mörg tækifæri í sókninni en stóð vaktina í vörn Stuttgart um stund.
Hjá Balingen var Akureyringurinn Oddur Gretarsson með 2 mörk úr 3 skotum.