Innlent

Dæmdur fyrir hótanir í garð fyrr­verandi sam­býlis­konu og nýjum kærasta hennar

Atli Ísleifsson skrifar
Héraðsdómur Austurlands á Egilsstöðum.
Héraðsdómur Austurlands á Egilsstöðum. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi og greiðslu miskabóta fyrir að beita fyrrverandi sambýliskonu sinni hótunum og hóta kærasta hennar líkamsmeiðingar eða lífláti. Þá hótaði maðurinn því einnig að drepa sjálfan sig.

Maðurinn kom hótununum á framfæri til fyrrverandi sambýliskonunnar í smáskilaboðum og á Messenger fyrr á þessu ári.

Í skilaboðum til fyrrverandi sambýliskonunnar, sem send voru á hlaupársdegi, segir dæmdi að hann „[ætli] að láta [kærasta hennar] hverfa“ „í holu“ og að hann muni  fá að „finna fyrir því“. Segist dæmdi sama hvort hann „[endi] í klefa“. 

Degi síðar sendi dæmdi smáskilaboð til konunnar þar sem hann segir að „[það eigi] eftir að gerast mjög ljótur atburður sem tengist þér“. „Það [mun] einn eða tveir deyja hann eða ég eða báðir það er á hreinu ég ætla að byrja á honum svo verð það ég þetta verður geðveikt,“ segir í skilaboðunum.

Hinn dæmdi játaði skýlaust sök og segir í dómnum að hann hafi að undanförnu átt við vanheilsu að stríða.

Dómurinn telur rétt að skilorðsbinda refsinguna, en að með háttsemi sinni hafi ákærði bakað sér bótaskyldu gagnvart konunni. Þóttu bæturnar hæfilegar 200 þúsund krónur, auk vaxta. Saksóknari hafi krafist miskabóta að fjárhæð 600 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×